Tengdir kvillar

Selíak er sjálfsofnæmissjúkdómur og þess vegna eru þeir sem hafa hann útsettari fyrir öðrum slíkum sjúkdómum eins og sykursýki I og skaldkirtilssjúkdómum. Sumir með selíak hafa einnig mjólkuróþol sem getur reyndar gengið til baka þegar þarmarnir hafa náð sér.

Mjólkuróþol (lactose intolerance)

Laktósi er tvísykra sem finnst í mjólk spendýra. Þessi tvísykra er brotin niður af ensíminu laktasa sem finnst í smáþörmunum. Vegna þess að þarmaveggir smáþarmanna eru skaddaðir hjá þeim sem hafa selíak er hætta á að þetta ensím skorti eða það virki ekki sem skyldi.

Einkenni mjókuróþols geta m.a. verið ógleði, uppköst, uppþemba, niðurgangur og kviðverkir.

Ef einkenni ganga ekki fyllilega til baka á glútenlausu fæði, gæti mjólkuróþol verið ástæðan. Því getur verið nauðsynlegt að útiloka mjólkurvörur líka, í það minnsta á meðan þarmaveggirnir gróa.

Sykursýki I og skjaldkirtilssjúkdómar

Sykursýki I lýsir sér í of háum blóðsykri vegna þess að brisið hættir að geta framleitt insúlín til að koma glúkósa inn í frumur líkamans til úrvinnslu. Selíak og sykursýki I eru báðir sjálfsofnæmissjúkdómar sem tengjast vegna þess að það virðist sem veikleikinn velti á svipuðum genum í báðum sjúkdómum. Sama ástæða liggur að baki tengingu sjálfsofnæmistengdra skjaldkirtilssjúkdóma og selíak.