Greining

Fyrsta skrefið í átt að greiningu er vanalega blóðsýni. Ef blóðsýni bendir til selíak (glútengarnameins, glútenóþols) er framkvæmd magaspeglun þar sem tekið er sýni úr smáþörmum til að staðfesta greiningu.

Áður en blóðsýni er tekið er mikilvægt að útiloka ekki glúten úr fæðunni áður, óþolsvaldurinn verður að vera til staðar svo líkaminn búi til mótefnið sem leitað er að í blóðsýninu. Ef glúten er útilokað úr fæðunni fyrir blóðtöku getur niðurstaða sýnis orðið  falskt-neikvætt og greining tafist enn frekar.

Ef grunur leikur á selíak sjúkdómnum er mikilvægt að sjálfgreina ekki. Það er meira en að segja það útiloka glúten ævilangt og mikill munur á því að hafa selíak og líða betur án glútens án þess að hafa sjúkdóminn. Þeir sem hafa selíak sjúkdóminn verða að forðast glúten alfarið og ævilangt, jafnvel í minnsta snefilmagni og forðast alla krossmengun. Því er mikilvægt að vita hvort þú hafir þarmasjúkdóminn selíak, því ef svo er þarftu að vera mun meira á varðbergi gagnvart földu glúteni og krossmengun en þeir sem forðast glúten án þess að hafa sjúkdóminn.

Blóðsýni

Heimilislæknir eða meltingarsérfræðingur getur vísað í blóðtöku til að mæla mótefni (antibodies) – Immunoglobulin A (IgA), anti-tissue transglutaminase antibodies (IgA tTGA) og anti-endomysial antibodies (IgA EMA).  Ef niðurstöður sýna hækkað tTGA eða jákvætt EMA ætti að vísa til meltingarsérfræðings sem framkvæmir vefsýnatöku til að staðfesta greiningu. Hafa skal í huga að neikvæðar niðurstöður blóðsýna útiloka ekki endilega selíak sjúkdóm, þar sem lítill hluti þeirra sem hafa sjúkdóminn hafa skort á IgA sem getur skekkt niðurstöðurnar. Blóðsýni geta verið sérstaklega óáreiðanleg hjá börnum undir þriggja ára aldri.

 Vefsýnataka

Til að taka vefsýni þarf að framkvæma magaspeglun. Lítil slanga er þrædd um munninn niður í smáþarma þar sem lítið vefsýni er tekið úr þarmaveggnum. Sýnið er svo skoðað undir smásjá til að ganga úr skugga um hvort skemmdir eru á þarmatotunum og þar með er hægt að staðfesta eða útiloka selíak greiningu.

Speglunin tekur stuttan tíma, oftast ekki nema 10-15 mínútur. Áður en hún er framkvæmd þarf að fasta frá kvöldinu áður til að magi og smáþarmar séu tómir þegar hún er gerð. Fullorðnir fá oftast vægt deyfilyf fyrir speglun en börn eru vanalega svæfð. Enginn sársauki fylgir því þegar þarmasýnið er tekið.