Glúten mótefni

Glúten mótefni  –  Transglutaminase mótefni

Gluten er forðaprótein hveitis. Sams konar prótein í rúgi, byggi og höfrum geta einnig valdið glutenóþoli. Glíadin er alkóhóluppleysanlegur þáttur glutens. Tveir sjúkdómar stafa af glutenóþoli. Annars vegar coeliac sjúkdómur, sem einkennist af skertu frásogi vegna útbreiddra skemmda í totum garnaslímhúðar. Hins vegar er dermatitis herpetiformis þar sem einkenni frá meltingarvegi eru lítil en sjúklingar hafa aftur á móti vessafyllt útbrot í húð. Enginn munur er á IgM glutenmótefnum hjá heilbrigðum einstaklingum og sjúklingum með glutenóþol. Margir glutenóþolssjúklingar hafa hins vegar hækkuð IgG glutenmótefni. Veruleg hækkun IgA glutenmótefna bendir sterklega til glutenóþols. Sumir sjúklingar með glutenóþol hafa ekki hækkuð glutenmótefni, þannig að lág glutenmótefni útiloka ekki glutenóþol. Magn glutenmótefna er háð glutenneyslu sjúklinganna. Mótefnamagn minnkar verulega þegar glutenneyslu eru hætt og eykst aftur þegar glutens er neytt. Mæling á glutenmótefnum er því m.a. gagnleg til að fylgjast með hversu vel sjúklingum tekst að sneyða hjá gluteni.
Sýni með hækkuð glutenmótefni, annaðhvort af IgG eða IgA gerð, eru mæld frekar fyrir IgA mótefnum gegn transglutaminase (IgA anti–tTG). Hækkuð IgA mótefni gegn transglutaminase eru talin mjög sértæk fyrir coeliac sjúkdóm (næmi ≈96% og sértækni ≈99%) og er það mun meiri sértækni en fyrir hækkuð mótefni gegn gluteni.
Sjúklingar með IgA skort mælast neikvæðir fyrir IgA mótefnum gegn bæði gluteni og transglutaminase. Neikvæð IgA mótefni gegn gluteni og transglutaminase útiloka þannig ekki að sjúklingar geti haft glutenóþol. Því getur þurft að mæla heildarmagn IgA til að tryggja að niðurstöðurnar séu ekki “falskt neikvæðar” vegna IgA skorts.
Sýni: 0,5 sermi.
Aðferð: ELISA (Enzyme Linked Immunosorbent Assay) Notaðir eru plastbakkar sem húðaðir eru með gluteni (IgG og IgA glutenmótefni) eða recombinat framleiddum transglutaminase (IgA anti–tTG).
Viðmiðunargildi: Eðlileg gildi fyrir IgG gluten mótefni eru ≤105 einingar, og fyrir IgA gluten mótefni  IgA ≤7 einingar. Eðlileg gildi fyrir IgA transglutaminase mótefni eru <8 einingar (U/ml). Mælist IgA transglutaminse mótefni á bilinu 5–8 einingar má telja það á “gráu svæði”, og getur þá eftir atvikum verið ástæða til að taka nýtt sýni og endurtaka mælinguna að nokkrum tíma liðnum.

 

Sótt 12.4.2018 af https://www.landspitali.is/?PageID=14482#Ranns%C3%B3knir%20-%20n%C3%A1nar/Gluten%20m%C3%B3tefni