Bökunarnámskeið í Bergen

Norsk Cøliakiforening eða norsku selíaksamtökin buðu okkur að taka þátt í bökunarnámskeiði hjá sér þar sem þau kenna meðlimum að halda bökunarnámskeið fyrir hönd samtakanna í sínu héraði. Við þáðum það með þökkum enda er mikill áhugi fyrir slíku námskeiði hér heima meðal fólks með glútenóþol/selíak sem og aðstandenda og almennings. Á námskeiðinu var farið yfir helstu grunnatriði í glútenlausum gerbakstri sem er mjög ólíkur gerbakstri með hveiti og öðru mjöli með glúteni. Mest áhersla var lögð á gerbakstur. Aðeins var farið í súrdeigsbakstur. Einnig voru kenndar aðferðir við að baka “lefser” sem eru eins konar flatkökur. Farið var vel yfir muninn á ólíkum mjöltegundum en því miður er úrvalið slíkt á Íslandi að við komumst ekki í hálfkvisti við úrvalið á norskum markaði og því heldur heft hvað það varðar. Gert var grein fyrir því hvaða áhöld þyrfti að eiga til að geta haldið námskeið. Ekki er hægt að nota öll þau áhöld sem til eru í iðnaðareldhúsum vegna hættu á krossmengun en til að geta haldið námskeið þyrfti að leigja afnot af t.d. skólaeldhúsi en þau koma sér best vegna vinnuaðstöðunnar en venjan er að skipta í hópa. Glúten getur setið í ótrúlegustu hlutum þrátt fyrir þvott. Námskeiðið var sett upp eins og við ættum að halda námskeiðin sjálf. Við fengum svör við öllum okkar spurningum og svör við algengum spurningum sem koma upp á námskeiðunum en reyndir aðilar héldu námskeiðið. Á námskeiðinu var bakað í hópum og allir fóru á milli til að sjá og finna hvernig áferð og útlit ætti að vera á hverju og einu á mismunandi stigum í ferlinu. Allir hjálpast að og í lok hverrar lotu var hlaðborð með afrakstrinum. Þegar við höfum komið okkur upp lager af þeim áhöldum sem til þarf til að halda námskeið, þá munum við ráðast í framkvæmdina.