Um samtökin

Markmið Selíak- og glútenóþolssamtaka Íslands er að vera upplýsingaveita á netinu fyrir fólk með selíak, tengd ofnæmi og óþol svo sem glútenóþol og hveitiofnæmi og aðstandendur þeirra.

Samtökin eru rekin af sjálfboðaliðum. Við sem stöndum að samtökunum höfum öll reynslu af selíaksjúkdómnum sem þolendur eða aðstandendur og höfum öðlast þekkingu sem við viljum miðla til annarra í svipaðri stöðu. Okkar reynsla er að takmörkuð vitund er um selíaksjúkdóminn og tengd ofnæmi og óþol á Íslandi. Eftir greiningu tók við langt ferli við öflun upplýsinga um fæðuval og matreiðslu.

Margar ranghugmyndir eru um glútenlaust fæði og er engan veginn hægt að reiða sig á margt sem skrifað hefur verið á veraldarvefinn um það. Hingað til hafa slíkar upplýsingar ekki verið aðgengilegar á einum stað á íslensku en við teljum mikilvægt að fólk geti leitað í slíkan gagnabanka þegar það greinist með selíak eða glútenóþol. Aðgengilegar upplýsingar og fræðsla er að okkar mati forsendan fyrir því að fólk geti sjálft borið ábyrgð á eigin heilsu. Því viljum við fræða fólk um þessi málefni og deila góðum ráðum um það sem hefur reynst okkur vel. Við erum ekki sérfræðingar en við munum leitast við að viðhafa fagleg vinnubrögð og byggja á viðurkenndri þekkingu.

Það er von okkar að vefurinn komi að góðum notum og verði áhugasömum vettvangur til að sækja góðar upplýsingar um glútenlaust fæði og bæta við áreiðanlegri þekkingu innan málaflokksins.

Bestu kveðjur,

Stjórn Selíak- og glútenóþolssamtaka Íslands.