Andlega hliðin

Andlega hliðin

Andlega hliðin og félagslegur stuðningur vilja oft gleymast þegar kemur að selíak. Glútenlaust mataræði er oft mikil breyting sem getur verið erfitt að aðlagast og krefst mikils af þeim sem hafa sjúkdóminn og aðstandendum.

Matur er svo miklu meira en bara líkamleg nauðsyn. Hann er stór partur af allri okkar menningu og félagslífi. Þegar breyta þarf mataræði eins og þeir sem greinast með selíak þurfa að gera, getur það haft töluverð áhrif á félagslíf viðkomandi. Að fara í matarboð eða út að borða getur valdið kvíða og leiða yfir því að mega ekki borða hvað sem er eða hræðslu við að fá óvart glúten. Einnig eru ferðalög oft erfið og mikilvægt að vera vel undirbúinn í slíkum aðstæðum.

Vegna þessa er svo mikilvægt að auka meðvitund um selíak svo samfélagið, aðstandendur og fagaðilar geti veitt þann stuðning og skilning sem þörf er á. Það ættu að vera sjálfsögð mannréttindi að fólk með selíak geti farið út að borða áhyggjulaust, fyrir börn að fá fæði við hæfi í skólum og leikskólum og að fólk með sjúkdóminn geti almennt farið fram á fæði við hæfi án þess að mæta fordómum og skilningsleysi.

Það er mjög skiljanlegt að finna fyrir andlegri vanlíðan og vonleysi yfir því að greinast með selíak sjúkdóminn á einhverjum tímapunktum. Eftirfarandi hugsanir eru t.d. mjög algengar:

  • Afneitun yfir greiningunni. Að bæla niður þær tilfinningar að það sé erfitt að vera með sjúkdóminn
  • Erfitt að sætta sig við að mega ekki borða hitt og þetta
  • Upplifa sig sem byrði á fjölskyldu og vinum
  • Leiði yfir því að vera með sérþarfir á veitingastöðum og í veislum
  • Að finnast þú koma að lokuðum dyrum og mæta skilningsleysi alls staðar

Auðvitað er erfitt að greinast með selíak eins og alla aðra sjúkdóma en hér er mikilvægt að horfa á björtu hliðarnar. Sjúkdóminn er hægt að meðhöndla án lyfja og aðgerða og til lengri tíma litið vegur stórbætt líðan á glútenlausu mataræði miklu þyngra en leiði yfir því að mega ekki borða glúten.

Með aukinni vitund og þekkingu á sjúkdómnum verður vonandi mun auðveldara að lifa glútenlausu lífi í náinni framtíð með auknu aðgengi að glútenlausu fæði.