Meðferð eftir greiningu

Það er engin lækning eða lyf til við celiak (glútenóþoli) nema að fylgja glútenlausu mataræði ævilangt. Ef því er fylgt má búast við því að einkenni hverfi, þarmarnir verði eðlilegir á ný og fullum lífsgæðum verði náð. Fljótlega eftir að glúten er fjarlægt úr mataræðinu ættu einkenni að minnka mikið en mislangan tíma getur tekið að þarmarnir nái sér að fullu, upptaka næringarefna verði eðlileg og einkenni hverfi alveg.

Mikilvægt er að kanna og fylgjast með stöðu næringarefna í líkamanum og sjá til þess að bæta upp það sem uppá kann að vanta. Mjög algengt er að þá sem hafa celiak skorti t.d. B12 vítamín og járn sem hægt er að fá úr bætiefnum og fjölbreyttu mataræði. Vegna almennrar vanupptöku sökum sjúkdómsins gæti einnig verið ráðlegt að taka góða fjölvítamín- og steinefnablöndu, allavega fyrst um sinn til að bæta líkamanum upp þau næringarefni sem hann hefur skort. Einnig er ákaflega mikilvægt að hafa mataræðið sem hreinast og fjölbreyttast. Gott er að borða t.d. nóg af grænmeti og ávöxtum sem innihalda gnótt næringarefna en forðast frekar sætindi og unna matvöru sem er snauðari af næringu.

 Stuðningur

Að greinast með celiak getur verið mikið áfall og því nauðsynlegt að leita stuðnings, bæði frá fagaðilum og sínum nánustu. Næringarráðgjafar geta hjálpað með fæðuval og hugmyndir að glútenlausum matarlausnum. Fjölskyldan verður að vera meðvituð um sjúkdóminn til að auðvelda öllum aðilum matmálstíma, matarboð og veislur. Einnig verður fjölskyldan að vera upplýst um falið glúten í unnum mat sem og krossmengun, sérstaklega þegar um börn er að ræða sem þurfa að treysta á fullorðna fólkið til að sjá til þess að þau fái ekkert glúten.

Stuðningshópar fyrir fólk með celiak eru frábær vettvangur til að hitta fólk í sömu sporum, skiptast á reynslusögum og ráðum.

Á netinu má finna ógrynni uppskrifta og hugmynda við matargerð sem hjálpa til við að halda fjölbreytni í mataræði.

 Eftirfylgni

Mikilvægt er að mæta reglulega í eftirfylgni hjá lækni. Hann mælir stöðu næringarefna til að kanna hvort upptaka næringarefna kemst í eðlilegt horf. Einnig getur hann mælt áðurnefnd mótefni í blóði til að ganga úr skugga um að ekkert glúten hafi leynst í mataræðinu.

Leitið einnig áframhaldandi stuðnings hjá næringarráðgjafa og/eða stuðningshópum eftir þörfum.