Hvað er selíak?

Seliak sjúkdómurinn (Celiac disease) er krónískur þarmasjúkdómur og lýsir sér þannig að slímhúð smáþarmanna skaðast og bólgnar af völdum glútens. Glúten er prótein sem á uppruna sinn í hveiti-, bygg- og rúgkorni. Meðferðin við selíak sjúkdómnum er 100% glútenlaust fæði ævilangt.

Seliak sjúkdómurinn er sjálfofnæmissjúkdómur sem lýsir sér þannig að þegar glúten er borðað ræðst ónæmiskerfi einstaklingsins á slímhúð þarmaveggjanna með þeim afleiðingum að þarmatoturnar fletjast út. Þetta verður til þess að upptaka næringarefna skerðist og ýmis einkenni geta komið fram, einkum frá meltingarvegi. Ef einstaklingar með seliak sjúkdóminn borða glúten getur þarmabólgan leitt til vannæringar og sjúkdóma í kjölfar næringaskorts.

 Einkenni selíak geta verið mörg og mjög ólík milli einstaklinga. Næringaskortur, þyngdartap, kviðverkir, niðurgangur, uppþemba, þreyta, þunglyndi, höfuðverkir, sár í munni, exem og hármissir eru einkenni sem geta komið fram. Sumir hafa þó lítil sem engin einkenni þrátt fyrir að hafa sjúkdóminn.

 Selíak er algengara meðal kvenna en karla og getur verið erfðatengt. Sjúkdómurinn er algengari hjá þeim sem hafa aðra sjálfofnæmissjúkdóma, eins og  sykursýki typu I og skjaldkirtilssjúkdóma. Eina lækningin er glútenlaust fæði.

Yfirfarið af Trausta Valdirmarssyni meltingarsérfræðing